Háskóli Íslands

Hefur verð áhrif á rafmagnsnotkun heimila?

Rafmagnseftirspurn íslenskra heimila dregst saman um 0,6% þegar verð á rafmagni hækkar um 1%, samkvæmt athugun Hagfræðistofnunar á rafmagnsnotkun íslenskra heimila á árunum 1997-2015. Þetta er svipuð útkoma og úr erlendum athugunum, sem vitnað er til í skýrslunni ( sjá www.hhi.hi.is/skyrslur) . Niðurstaðan kemur nokkuð á óvart. Rafmagn er ódýrt á Íslandi og því hefði mátt ætla að íslenskir neytendur kipptu sér síður upp við verðbreytingar en þeir sem borga meira fyrir rafmagnið. Þá bendir athugunin til þess að rafmagnsnotkun heimila á Íslandi breytist nokkurn veginn í takt við tekjur. Þegar heimilistekjur vaxi um 1% noti íslensk heimili 1% meira rafmagn. Samhengi rafmagnsnotkunar og tekna er mun meira en lesið verður úr erlendum athugunum. 

Við matið er stuðst við ályktanir um samhengi verðs, tekna og útgjalda, sem dregnar hafa verið í rekstrarhagfræði.  Þar sem ekki þarf gögn til þess að staðfesta ,,sjálfsagða hluti“ er hægt að kreista meiri upplýsingar en ella úr takmörkuðum gögnum. Aðferðin var sett fram af Angus Deaton og John Muellbauer árið 1980, en Deaton fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði árið 2015 fyrir athuganir sínar á neyslu, fátækt og velferð. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is