Háskóli Íslands

Mestur vöxtur á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og Suðurlandi

Framleiðsla jókst um 8% á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra og á Suðurlandi á árunum 2008 til 2015, en minna í öðrum landshlutum. Hagvöxtur var 3% á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi vestra, en á Vestfjörðum dróst framleiðsla saman um 6%. Framleiðsla jókst nokkru meira úti um land en á höfuðborgarsvæðinu. Skýringarnar liggja einkum í auknum fiskafla og lágu raungengi frá 2009, en það er hagstætt fiskvinnslu og ýmiss konar iðnaði, sem efldist víða um land á tímabilinu. Umsvif í fjármálaþjónustu drógust saman allan tímann sem skoðaður er. Það kom verst við höfuðborgarsvæðið. Á móti ýttu aukin umsvif í ferðaþjónustu undir hagvöxt í höfuðborginni og næstu landshlutum. Raunar má skýra allan hagvöxt á landinu á árunum 2008-2015 með vexti í ferðaþjónustugreinum. Uppgangur í ferðaþjónustu kemur á góðum tíma, því að hann fer saman við hrun bankanna. Rangt væri þó að segja að ferðaþjónusta hafi fyllt það skarð sem fjármálafyrirtæki skilja eftir á vinnumarkaði. Störf í ferðaþjónustu höfða oftast nær ekki til þeirra sem misstu vinnuna í fjármálakreppunni. Nokkuð er að vísu um að fólk sem áður sinnti öðrum störfum hér á landi vinni við leiðsögn, en laun í veitinga- og gistihúsum freista yfirleitt ekki Íslendinga.

Allt tímabilið uxu ferðaþjónustugreinar og sjávarútvegur mest allra atvinnuvega. Ferðaþjónusta er að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Norðurland eystra og Suðurnes, en sjávarútvegur dreifist nokkuð jafnt um flesta landshluta. Á fyrstu árum aldarinnar færðist útgerð til höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja en eftir 2008 hefur hún styrkst í öðrum landshlutum. 

Þessar upplýsingar má finna í skýrslu sem Hagfræðistofnun vann í samvinnu við Byggðastofnun (http://www.hhi.hi.is/annad_efni).

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is