Háskóli Íslands

Aðaltekjulind ábúðarbænda er utan bús

Ríkið leigir út rúmlega 100 jarðir til búskapar. Ábúðarbændur eru ekki alveg dæmigerðir fyrir íslenska bændur. Flestir stunda sauðfjárbúskap og þeir eru að meðaltali 5-10 árum eldri en aðrir bændur. Þó má fá hugmynd um kjör bænda almennt, einkum sauðfjárbænda, með því að skoða tekjur bænda á ábúðarjörðum. Á þeim ábúðarjörðum þar sem einhver búskapur var á annað borð árið 2015 voru rekstrartekjur ekki fjarri meðaltekjum á öðrum búum hér á landi, eða um 10 milljónir króna. En svo er að sjá sem ekki sé rekinn búskapur, svo að heitið geti, nema á 60-65% ábúðarjarða. Heildartekjur ábúenda og maka, að frádregnum kostnaði við búið, eru litlar, eða um 5,3 milljónir króna að jafnaði árið 2015. Þetta er aðeins undir meðaltekjum einstakra framteljenda hér á landi, en hafa ber í huga að á tæplega 40% jarðanna er ábúandi einn í heimili. Athygli vekur, þegar heimilistekjurnar eru skoðaðar, að stærsti tekjuliðurinn er laun utan bús. Aðeins þriðjungur hreinna tekna ábúenda og maka er frá búrekstrinum. Þá eru lífeyrisgreiðslur drjúgur tekjupóstur, enda eru ábúðarbændur nokkuð við aldur, eins og áður kom fram. Fróðlegt væri að skoða hvaðan launatekjurnar eru. Þá væri gaman að sjá sams konar greiningu á tekjum annarra sveitaheimila, en hún hefur ekki verið gerð, svo að kunnugt sé. Þó er vitað að sárafáir lifa eingöngu á sauðfjárrækt hér á landi. Sauðfjárbændur og makar þeirra moka snjó, aka skólabíl, vinna í skólamötuneytum og stunda aðra vinnu sem til fellur í sveitum. Höfuðvandi landbúnaðar er að framleiðni vex hraðar þar en í flestum öðrum atvinnugreinum, en takmörk eru fyrir því hvað fólk getur borðað mikið. Því verður ekki hjá því komist að æ minna þurfi að hafa fyrir því að fæða landsmenn. Ef byggð á að haldast í sveitum verða íbúarnir að snúa sér að öðrum verkefnum. Stjórnvöld hafa leitast við að finna þau. Einu sinni var loðdýrarækt málið, nú virðist það vera skógrækt. En ekki kæmi á óvart að þau störf sem bændur hafa fundið sér sjálfir væru miklu fjölbreyttari. 

Upplýsingar um ábúðarjarðir í ríkiseigu má finna í skýrslu sem Hagfræðistofnun vann fyrir fjármálaráðuneytið (http://hhi.hi.is/skyrslur).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is