Háskóli Íslands

Ófrjáls för og ríkiseign á jörðum

Náttúruverndarlög virðast við fyrstu athugun vera nokkuð skýr hvað varðar rétt fólks til þess að ferðast um landið. Þar segir í 17. grein:

Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.  

 

Í 18. grein laganna segir jafnframt:

Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar.

Lengi vel var réttur almennings til að ferðast um óræktað land fortakslaus, en breyting varð á með náttúruverndarlögum, sem sett voru 1971. Samkvæmt þeim þurfti leyfi til þess að ferðast um afgirt land. Ætlunin var að færa þetta til fyrra horfs þegar lögin voru endurskoðuð 1999, en að tillögu umhverfisnefndar alþingis var þessari málsgrein bætt við textann í 18. grein, sem áður var vitnað til:

Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi.

Í nefndaráliti kemur fram að með byggð sé bæði átt við þéttbýlt land og strjálbýlt. Tillagan er þannig rökstudd í áliti nefndarinnar:

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að þessir aðilar telji ástæðu til að nýta [heimild til að banna för um afgirt land]. Má þar nefna beit eða aðra notkun á landinu.

Ekki verður séð af þingtíðindum að deilt hafi verið um breytingartillöguna. Nærtækast er að ætla að menn hafi ekki gert sér grein fyrir mikilvægi hennar. Bændur hafa yfirleitt ekki amast við ferðum fólks utan ræktaðs lands. Algengara er að landeigendur, sem ekki stunda búskap, agnúist út í mannaferðir. Dæmi eru um að landeigendur túlki rétt sinn til þess að takmarka umferð gangandi fólks mjög vítt og virðist lítið vera hægt að gera við því.  Það gæti reynst dýrt fyrir ríkissjóð, ef eina leiðin til þess að tryggja aðgengi almennings að landi er að ríkið eigi það. Nokkur dæmi eru um að landeigendur innheimti gjald af ferðamönnum þar sem umferð er mikil. Það hefur vakið deilur, en sjálfsagt er erfiðara að setja sig upp á móti því eftir að ríkið sjálft er farið að rukka fyrir aðgang að vinsælum ferðamannastöðum. Tekið er gjald af þeim sem koma í þjóðgarðana á Þingvöllum, í Skaftafelli, að Dettifossi og víðar.

Rætt er um álitaefni sem varða jarðeignir ríkisins í skýrslu um ábúðarjarðir í ríkiseigu (http://hhi.hi.is/skyrslur).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is