Háskóli Íslands

Skilar lækkun tolla sér til neytenda?

Íslendingar felldu niður tolla á öllum vörum nema búvörum í árslok 2015 og 2016. Jafnframt voru almenn vörugjöld felld niður. Í maí 2016 skoðaði verðlagseftirlit Alþýðusambandsins undirliði neysluverðsvísitölunnar og komst að þeirri niðurstöðu að verslanir hefðu ekki skilað afnámi tolla á fatnaði og skóm að fullu. Bændasamtökin telja líka óvarlegt að gera ráð fyrir að eftirgjöf á tollum skili sér til neytenda. Þeim er málið skylt, því að þeim tollum sem eftir standa er ætlað að vernda innlenda búvöruframleiðslu fyrir erlendri samkeppni. 

Í skýrslu sem Hagfræðistofnun gerði nýlega fyrir forsætisráðuneytið er horft á álagningu kaupmanna á nokkrum vörum sem tollar voru felldir niður af. Álagningin er metin með hliðsjón af tollskýrslum, athugun Hagstofunnar á smásöluverði og upplýsingum um skatta og gjöld. Álagning minnkaði eða breyttist lítið í krónum talið á sjö vörum af átta, sem skoðaðar voru, en hún hækkaði um 3-6% á einni vöru. Inni í álagningu kaupmanna er launakostnaður, sem hefur hækkað mikið undanfarin ár. Óhætt virðist að draga þá ályktun að lækkun opinberra gjalda hafi skilað sér til neytenda, að minnsta kosti á þeim vörum sem skoðaðar voru.

Skýrslan var rýnd af tveim óháðum sérfræðingum á sviðinu. Hana má sjá hér: http://hhi.hi.is/skyrslur

Á myndinni sést samsetning verðs á þremur tegundum fatnaðar. Áætla varð tollverð, því að innflutningur er mældur í tonnum en ekki fjölda flíka. Þá er ekki fullkomið samræmi í tollflokkum og flokkun Hagstofunnar á vörum í smásölu. Markmiðið með athuguninni var ekki að skoða hvað verslunarálagning væri há, heldur að kanna hvort hún hefði breyst. Engu að síður vekur athygli hvað álagningin virðist vera mikil. Ekki verður betur séð en að hún sé margfalt innkaupsverð varanna. Verslunarálagning inniheldur ekki aðeins ágóða kaupmanna, heldur einnig allan kostnað. Samkeppni er þó nokkur í fataverslun. Ekki er erfitt að opna fatabúð á Íslandi. Ólíklegt er að mikill gróði sé af rekstri slíkra búða. Kostnaður er hins vegar mikill. Dýrt er að liggja með birgðir af fatnaði, sem selst misvel. Húsaleiga getur líka verið mjög há. Neytendur bera þennan kostnað. Á seinni árum hafa margir brugðist við með því að kaupa föt -ómátuð- á netinu. Ágóði af netkaupum á fötum og skóm getur hæglega bætt upp hættu á að flíkin passi ekki.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is