Háskóli Íslands

Er komið að lánardrottnum Icelandair að gefa eftir skuldir við fyrirtækið?

Hagfræðingarnir Gylfi Magnússon og Yngvi Örn Kristinsson efast um um að ráðlegt sé fyrir íslenska lífeyrissjóði að fjárfesta í Icelandair. Þetta kom fram á zoom-fundi Hagfræðistofnunar og viðskiptafræðideildar mánudaginn 7. september.  Í framsögu sinni sagði Simons Theeuwes sérfræðingur í flugsamgöngum að flug um Shiphol-flugvöll í Amsterdam hefði hér um bil lagst af í apríl, en síðan hefði það aukist smátt og smátt. Farþegar væru nú um 40% af því sem vant er. Icelandair gerir ráð fyrir því að á komandi ári verði flug þess 35-40% af því sem var 2019. Simon lagði áherslu á mikilvægi samvinnu stjórnvalda, flugvallaryfirvalda og þjóðarflugfélaga. Á Íslandi vægi flugið þyngra í hagkerfinu en annars staðar og því þyrfti að huga að því hvort aðrir gætu hjálpað til. Hér væru lífeyrissjóðir stórir og þeir ættu nú þegar stóran hlut í Icelandair. Gylfi sagði að erfitt yrði fyrir Keflavíkurflugvöll að vinna aftur fyrri stöðu sem tengipunktur í Atlantshafsflugi. Þar yrði að byrja smátt. Icelandair hefði orðið fyrir áföllum fyrir faraldur með kaupum á Max-vélunum og erfiðri samkeppni við Wow-air, sem lengi hefði tapað miklu fé. Erfitt væri að sjá að Icelandair næði fyrra flugi aftur. Yngvi Örn sagði að sá munur væri á aðstoð ríkisins við flug hér og í Hollandi að íslensk stjórnvöld settu það sem skilyrði fyrir aðkomu sinni að safnað yrði umtalsverðu hlutafé. Teflt væri á tæpasta vað með þeirri fjárfestingu sem hér væri í boði. Ef fjármögnunin gengi ekki upp væri ríkisstuðningurinn úr sögunni. Ásgeir Brynjar Torfason viðskiptafræðingur sagði að hér væri ekki aðeins um hvern annan fjárfestingarkost að ræða heldur yrði að líta til aðstæðna. Í ljósi þeirra yrði að skoða samstarf lífeyrissjóða, ríkis og sjálfstæðra félaga með opnum huga og losa sig við kreddur úr amerískum kennslubókum um hvernig fullkominn markaður hegðaði sér í eðlilegu ástandi. Æskilegt væri að lífeyrissjóðir fjárfestu til langs tíma í grunninnviðum. Gylfi sagði að hlutabréf í Icelandair væri ekki sú eign sem hentaði lífeyrissjóðunum best. Icelandair þyrfti fjárfesta með meira tapsþol en íslenskir lífeyrissjóðir hefðu og betri tengingu við fluggeirann. Lífeyrissjóðir mættu ekki fjárfesta til þess eins að leysa vanda í efnahagslífinu. Hugsanlega þyrfti ríkið að koma inn með hlutafé. Yngvi tók undir það að áhættan við þessa fjárfestingu væri svo mikil að mjög erfitt væri fyrir lífeyrissjóði að leggja í hana. Þetta væri verkefni fyrir sérhæfðari fjárfesta eða ríkið. Þar sem eiginfjárstaða Icelandair væri veik og óvissa mikil í rekstrinum þyrftu lánardrottnar félagsins ef til vill að breyta hluta af lánum sínum í hlutafé.

Um 65 manns fylgdust með fundinum. Skoða má upptöku hér.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is