Háskóli Íslands

Þjónusta er öflug í grennd við friðuð svæði - en túlka ber tölur með gát

Rannsóknir Jukka Siltanens, umhverfis- og auðlindafræðings, á hagrænum áhrifum þjóðgarða og verndaðra svæða benda til þess að þau dragi til sín fleiri gesti en svæði sem eru ekki friðuð. Samanlagt fer meirihluti útgjalda ferðamanna á vernduðum svæðum í gistingu, skoðunarferðir, kaffihús og aðra veitingastaði. Víðast má tengja um það bil eitt starf í næsta nágrenni þjóðgarða við hverja þúsund gesti. Vinna hátt í tvö þúsund manna í grennd við 11 friðuð svæði tengist ferðaþjónustu. Siltanen byggir niðurstöður sína á viðtölum við ríflega 3.000 ferðamenn. Hann sannreynir niðurstöður sínar með netpóstkönnun meðal ferðaþjónustufyrirtækja, auk þess sem hann skoðar skattagögn. Af þessum athugunum má ætla að áhrif friðaðra svæða á atvinnulíf í næsta nágrenni séu almennt ekki ofmetin. Hér er ekki lagt mat á ruðningsáhrif ferðaþjónustunnar, en ætla má að þau séu töluverð þegar horft er á landið allt. Með öðrum orðum má ætla að umsvif í ferðaþjónustu verði til þess að umsvif í öðrum atvinnugreinum hér á landi séu minni en ella. En ruðningsáhrifin eru líkast til lítil í grennd við mörg friðuð svæði. Það stafar meðal annars af því að þar hefur atvinnulíf átt undir högg að sækja. Ferðaþjónusta hentar sérstaklega vel sem aukabúgrein í sauðfjárrækt. Sjaldgæft er að bændur og fjölskyldur þeirra hafi fulla atvinnu af því að rækta sauðfé. Verkum í heyskap fækkar hratt með nýrri tækni. 

 

Jukka áætlar meðal annars skatttekjur, sem tengja má útgjöldum þeirra sem leggja leið sína um friðuð svæði. Í greinargerð hans kemur fram að þessar tekjur eru miklu meiri en útgjöld ríkisins til friðaðra svæða. Það endurspeglar sennilega fyrst og fremst þá staðreynd að ríkið ver litlu fé til svæðanna. Djarft væri að álykta að hlutfallið gefi fyrirheit um ábata hins opinbera af fjárfestingum í þjóðgörðum. 

Skýrslu um áhrif friðaðra svæða á atvinnu í næsta nágrenni má finna hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is