Háskóli Íslands

Hæpið að Íshafssiglingar skapi grundvöll fyrir umskipunarhöfn á Íslandi á næstunni

Þegar ís bráðnar á norðurslóðum má sigla eftir leiðum sem áður voru lokaðar. Hagfræðistofnun spáir því að á bilinu 20 til 2.300 gámaskip fari um Íshafið eftir tíu ár. Lægri talan, 20, er miðuð við einungis ný skip fari um Íshafið, það er að segja skip sem ekki eru í siglingum milli heimsálfa núna. Hærri talan, 2.300, er miðuð við að öll skip sem hagkvæmt er að fari um Íshafið geri það. Líklegt er að fyrstu árin verði það einkum skip, sem eru að hefja siglingar milli Austur-Asíu og Vesturlanda, sem fara þessa leið, en smám saman má gera ráð fyrir að fleiri skip fari um Íshafið, ef það borgar sig á annað borð. Hér er stuðst við svonefnt þyngdaraflslíkan, sem gefið hefur góða raun við að segja fyrir um viðskipti landa. Sérfræðingar eru bjartsýnni á flutninga með tankskipum en gámaflutninga á norðurslóðum. Gámaflutningar krefjast mikillar nákvæmni í tímasetningum og erfitt er að vera nákvæmur þegar siglt er um jafnvarasamar slóðir og Norður-Íshaf. 

 

Skoðað var hvort Ísland væri álitlegur staður til þess að þjóna Íshafssiglingum. Rætt hefur verið um að hagkvæmt gæti verið að umskipa hér úr styrktum skipum yfir í önnur skip, sem flyttu farminn áfram til meginlands Evrópu. Finnafjörður hentar að mörgu leyti vel fyrir umskipunarhöfn. Þar er aðdjúpt, fjörðurinn er víður og þar er mikið láglendi. Bornir eru saman nokkrir kostir, annars vegar umskipun í Finnafirði, á Svalbarða eða í Kirkenes í Noregi og hins vegar að siglt sé á styrktu skipi alla leið til hafnar í Hollandi eða Belgíu. Ísland er aldrei hagstæðasti kosturinn landið er hreinlega úr leið. Oftast virðist borga sig að umskipa ekki – með öðrum orðum að sigla á styrktum skipum á leiðarenda. 

Ef áfram hlýnar og hafís heldur áfram að hörfa, þannig að aðstæður á leiðinni þvert yfir Norðurskautið verði á endanum góðar, liggur beint við að fara þá leið. Miðleiðin er stutt og án takmarkana um djúpristu. Þess vegna mætti sigla á mjög stórum skipum og nýta hagkvæmni stærðar þannig til fulls. Þá kann Ísland að hafa samkeppnisforskot vegna góðs hafnarstæðis í Finnafirði og dýptartakmarkana í öðrum höfnum. En hér er horft langt fram í tímann, sennilega 40-50 ár.

Lesa má meira um Ísland og Íshafssiglingar hér.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is