Háskóli Íslands

Meiri sátt við Vatnajökulsþjóðgarð á suðursvæði en norðursvæði

Þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli 1967 og í Jökulsárgljúfrum 1973. Síðan hafa allur Vatnajökull og næsta nágrenni hans bæst við og allt svæðið sameinast þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum í Vatnajökulsþjóðgarð. Í Jökulsárgljúfrum er þjóðgarður aðeins vestan megin Jökulsár, en ráðgert var í upphafi að hann næði yfir landið báðum megin árinnar. Ekki hefur orðið úr því - og ekki verður séð að það standi til, en ekki er ljóst hvað veldur. Kannski er auðveldara að friða jökla fyrir ágangi manna en svæði í byggð. En friðun fyrir beit hefur haft mikil áhrif í Jökulsárþjóðgarði. Í bók Sigrúnar Helgadóttur um gljúfrin má til dæmis sjá ljósmynd sem tekin er á fyrstu árum þjóðgarðsins. Í myndatexta kemur fram að ekki sé ljóst hvar myndin var tekin, enda sé þar nú allt á kafi í gróðri.

 

Af samtölum við heimamenn má ráða að verr hafi tekist til með samskipti við íbúa á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs en á suðursvæðinu. Greinilegt er að gamlar deilur við náttúruverndaryfirvöld bæði í nágrenni Ásbyrgis og í Mývatnssveit lita enn viðhorf margra og enn þarf að takast á við skort á trausti. Fram kemur að margir óttast boð og bönn og vilja að meira samráð sé haft við heimafólk á öllum stigum ákvarðana um friðlýsingu svæða. Rauður þráður í gegnum öll viðtölin er að þegar djúpstæðu vantrausti er lýst er yfirleitt verið að vísa til þeirra sem koma að stjórn þjóðgarðsins og náttúruvernd almennt úr fjarlægð, en mun meiri ánægja er með samskipti við starfsfólk á svæðinu sem á heima þar og á í persónulegum samskiptum við íbúa.  Þessi fortíðarvandi átti sér ekki samsvörun á suðursvæðinu. En þótt dæmi séu af norðursvæðinu um viðmælendur sem vilja ekkert af þjóðgarðinum vita og telji hann eingöngu vera til vandræða þá telja fleiri að kominn sé tími til að setja gamlar erjur til hliðar og meta það svo að viðhorf í garð þjóðgarðsins séu að breytast á svæðinu og að þau séu orðin jákvæðari en áður.

 

Þetta og fleira kom fram í samtölum árið 2019, en niðurstöðum rannsóknarinnar er lýst hér. Að henni komu Auður Ingólfsdóttir, Þorvarður Árnason, Arndís Lára Kolbrúnardóttir, Jukka Siltanen, Hjalti Jóhannesson og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is