Háskóli Íslands

1% kolefnisgjald dregur úr bensínkaupum fólks og fyrirtækja um 0,3-0,35%

Samkvæmt rannsókn á gögnum frá Hagstofu Íslands frá árunum 2000 til 2017 dragast bensínkaup heimila saman um 0,35% þegar bensínverð hækkar um 1%. Rannsóknin er byggð á svonefndu eftirspurnarkerfi, en þá eru niðurstöður úr rekstrarhagfræði nýttar við matið. Niðurstaðan er í samræmi við erlendar rannsóknir, sem sýna samdrátt í bensínnotkun heimila um 0,3-1% þegar bensínverð hækkar um 1%. 

 

Rannsóknin bendir til þess að eftirspurn heimila eftir bensíni sé óteygin, hún minnki með öðrum orðum minna en nemur verðhækkun. Það gildir líka um matvörur og fleira sem fólk vill helst ekki vera án. Bensíneftirspurn eykst um 0,1% þegar tekjur aukast um 1%. Bensín er með öðrum orðum nauðsynjavara. Hlutur slíkra vara er stærri í neyslu lágtekjufólks en annarra. Kolefnisgjald leggst því með meiri þunga á fólk með lágar tekjur en aðra, en líta má til þess þegar ákveðið er hvernig tekjum af gjaldinu er ráðstafað. 

 

Viðbrögð nokkurra atvinnugreina við gjaldi á bensín og olíu voru metin á svipaðan hátt. Óvegið meðaltal fyrir fiskveiðar, flug, byggingar, iðnað og sjóflutninga sýnir 0,3% samdrátt í olíunotkun þegar verð hækkar um 1%. Viðbrögðin virðast koma að mestu fram sama ár og gjaldið er lagt á. Óvissa er töluverð í matinu. Aðeins í flugi eru 95%-vikmörk fyrir langtímaáhrif að öllu leyti undir núllpunktinum. Niðurstaðan er svipuð því sem fengist hefur úr erlendum rannsóknum. Nýleg athugun á áhrifum kolefnisgjalds í iðnaði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð bendir til þess að olíunotkun dragist saman um 0,4-0,6% þegar olíuverð hækkar um 1%. 

Kolefnisgjald á bensin og olíu á bíla hefur verið rúm 4% af verði. Ef minnka ætti bensínnotkun um 1% þyrfti að hækka gjaldið um tæpan helming, eða 75-85%, ef marka má athugunina. Hana má finna hér. Athugunin var gerð fyrir umhverfisráðuneytið. Hún var rýnd af sérfræðingum á sviðinu.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is