Háskóli Íslands

Hagrænir hvatar eða fyrirframsniðnar lausnir gegn loftslagsáhrifum?

Rætt var um loftslagsmál, önnur umhverfismál og efnahagslega þýðingu þeirra á málstofu á Þjóðarspegli föstudaginn 30. október.

 

Fyrst sagði Ágúst Arnórsson frá rannsókn á hagrænu umhverfismati á Hólasandslínu 3. Framkvæmdakostnaður var borinn saman við mat á ábata af aðgerðum á nokkrum stöðum. Þannig var skoðað hvort það borgaði sig að sameina tvær samsíða línur í eitt mastur í Fnjóskadal, hvort leggja ætti jarðstreng um Laxárdal fremur en línu yfir dalinn og hvort taka ætti niður gamla Laxárlínu, til mótvægis. Ábatinn var metinn með valtilraun meðal almennings, sem fékk upplýsingar um framkvæmdina og gat valið um kosti. Ábati af að sameina línur í Fnjóskadal og að taka niður Laxárlínu reyndist svipaður kostnaði við framkvæmdir. Í þriðja dæminu voru niðurstöður aftur á móti skýrar, því að virði jarðstrengs um Laxárdals reyndist vera frádrægt (<0) í huga svarenda. Þar ræður sjálfsagt miklu að leiðin liggur um hraun sem strengur hefði raskað varanlega.

 

Kári Kristjánsson og Sigurður Jóhannesson gerðu grein fyrir athugun á áhrifum kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun fólks og fyrirtækja. Niðurstaða beggja athugana var að eldsneytisnotkun minnkaði um 0,3-0,35% ef lagt væri á gjald sem væri 1% eldsneytisverðs. Færð voru rök að því að hagkvæmara væri að leggja á kolefnisgjald en að beita boðum og bönnum í baráttunni við gróðurhúsaáhrif - að því gefnu að tjón af völdum útblásturs ætti sér eitthvert endanlegt verð.

 

Þórólfur Matthíasson ræddi hvaða reiknivextir ættu við í mati á hagsmunum nútíðar og framtíðar í loftslagsmálum. Hann ræddi kosti og galla breiðbogaafvöxtunar, sem fellur eftir því sem lengra líður fram í tímann. Breiðbogaafvöxtun virðist að sumu leyti passa betur við mannlega hegðun en hefðbundin veldisvísisafvöxtun.

 

Helgi Tómasson ræddi aðferðafræði tímaraða í tengslum við þróun hitastigs á jörðunni. Rakin voru nokkur tæknileg atriði varðandi líkön í strjálum og samfelldum tíma. Einnig var rætt um eiginleika long-memory líkana. Slík líkön sýna, að dómi Helga, að fráleitt er að álykta um mikla hlýnun jarðar. Skoðun á sambandi koltvísýrings og hitastigs síðustu 800.000 ár bendir ekki til þess að önnur breytan sé á undan hinni.

 

Að lokum ræddi Daði Már Kristófersson um 48 aðgerðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem stjórnvöld ráðgera. Miklu virðist muna á hagkvæmni aðgerðanna. Daði talaði fyrir því að nýttir yrðu hvatar sem stuðluðu að hagkvæmri lausn fremur en að lausnirnar væru skilgreindar af stjórnvöldum. Dæmi um slíka hvata væru losunarkvótar og skattar á losun. 

 

Ágrip erindanna má sjá hér.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is